Þó kaldir vindar blási þá er óheyrilega stutt í sumarið, sem betur fer. Margir velja sumarið til að fara í framkvæmdir af augljósum ástæðum, en mikilvægt er að undirbúa sumarframkvæmdirnar vel. Ef undirbúningurinn er góður er lítið mál að láta allt ganga smurt fyrir sig og auðvitað mun einfaldara að finna sér fagfólk í verkið.
Hér fyrir neðan eru nokkur ráð svo sumarframkvæmdirnar taki ekki alltof mikið á taugarnar.
Nauðsynlegar aðgerðir
Gerðu lista yfir þá hluti sem þarf að gera og forgangsraðaðu þeim með það í huga hvaða hlutir liggja undir skemmdum í og við eignina. Þetta er í raun mikilvægasta ráðið af þeim öllum því á einu ári geta skemmdir á mikilvægum innviðum fasteigna verið gífurlegar og viðgerðir orðið ansi dýrar ef beðið er of lengi með viðhald.
Þar eru þakviðgerðir, gluggaskipti og múrviðgerðir efstar á lista. Í þessar framkvæmdir er oft farið á sumrin þar sem að efnin sem notuð eru þola oft illa frostið sem skellur á um veturinn.
Auktu verðgildi eignarinnar
Þakvinna, gluggaviðgerðir og -ísetningar og málningarvinna eru góð dæmi um sumarframkvæmdir. Þessar aðgerðir auka verðgildi eignarinnar. Aðrar framkvæmdir sem auka verðgildi fasteignar eru innréttingaskipti, uppfærsla á hurðum og parketlögn en þær eru að sjálfsgöðu ekki bundnar við sumarið.
Fáðu tímaáætlun
Verkefni taka mislangan tíma. Verktakar eru með mismunandi fagfólk tiltækt hverju sinni og það getur munað miklu hve langan tíma framkvæmdir taka hjá mismunandi verktökum. Það er gríðarlega mikilvægt að átta sig á hvaða tíma ákveðnar framkvæmdir taka því annars getur maður bitið í það súra þegar reikningurinn kemur. Og það vill enginn!
Hve miklu ætlarðu að eyða?
Gerðu raunhæfa fjárhags- og tímaáætlun fyrir hvert verkefni. Það er nauðsynlegt að vera snemma í því að bóka fagfólk í sumarframkvæmdir, ef þess þarf, til þess að fá örugglega fólk til starfa innan þess ramma sem þú vilt að verkefnin séu unnin. Auk þess þarf oft að vera tímanlega í að panta efni og eru gluggar besta dæmið um það. Það getur verið gott að fara inn á heimasíður verktaka sem eru með reiknivélar til að reikna út grófan kostnað, til dæmis þessa hér. Auðvitað er líka alltaf hægt að taka upp símann og bara spyrja, nú eða senda tölvupóst. Þannig getur þú ákveðið hvaða verkefni eru raunhæf miðað við fjárhagsáætlun og tíma. Verktakar með vanan mannskap geta verið mun fljótari að klára verk og er oft hægt að semja um tímalínu fyrir hvert verk ef það hentar betur.
Njóttu framkvæmdanna
Já, það er skrýtið að segja það en það er hægt að gera þetta að skemmtilegu og gefandi ferli! Þó að heimilisframkvæmdir geti stundum verið krefjandi er mikilvægt að staldra við og fagna ánægjutilfinningunum sem kvikna við að sjá breytingarnar og verðmætin sem þú hefur skapað á heimilinu þínu. Þarna skiptir sköpum að velja verktaka sem hefur góða kunnáttu og skipulag – þannig getur þú treyst því að verkið sé í góðum höndum. Það minnkar streituna talsvert því það er fátt erfiðara en að velja verktaka sem standa ekki við það samið var um.
Gleðilegt framkvæmdasumar!